Mig langaði að prufa að búa til almennilegan Brunch svo ég bauð vinkonu minni, bróðir mínum og litla skottinu þeirra í smá laugardagsbrunch. Tók mig ekki nema 1 & 1/2 klst að útbúa herlegheitin + eftirrétt, kærastinn var góð hjálparhönd.
Við buðum til að mynda upp á:
Ofnbakað beikon
Eggjahræru m/ mexíkóost
Ávaxtabakka
Amerískar pönnukökur m/ oreosúkkulaði
Graflax á kexi
Bakarísbrauð og með því
Appelsínusúkkulaði ostaköku
Uppskrift af Amerísku pönnukökunum:
2 dl hveiti
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1 tsk sjávarsalt
2 msk sykur
2 dl mjólk
2 egg
2 msk olía
1 stk milka oreosúkkulaði (niðurbrytjað)
Öllu blandað saman, nema súkkulaðinu, í hrærivélaskál og hrært vel saman. Gott að brytja súkkulaðið niður á meðan og bæta því svo við deigið. Hitið pönnuna vel með smá olíu á en lækkið hitan niður í ca. 5 þegar þið farið að baka pönnsurnar. Ég setti ca. 2 msk ef deigi á pönnuna, bakaði vel einum megin eða þar til hægt var að snúa pönnsunni við og bakaði hinum megin í ca hálfa mínútu.
Hrikalega góðar með Nutella og jarðaberjum eða bara með góðu hlynsýrópi.
Eggjahræra m/ mexikóost
(fyrir ca. 4)
7 millistór egg
slatti af pipar
smá Aromat krydd
lúka af rifnum mexikóost
Þessu eru öllu bara skellt saman í skál og hrært saman með gaffli. Síðan hellið þið þessu á heita pönnuna með smá olíu á og hrærið í þar til eggin eru tilbúin.
Ég mun svo skella í nýtt blogg eftir helgi með uppskrift af þessum dásemdar eftirrétt.
erlaguðmundsdóttir