Tagliatelle m/kjúkling og pestó.
Þetta er einn af mínum uppáhalds réttum og bý ég hann til reglulega. Hann er fljótlegur, einfaldur og ekki er bragðið að skemma fyrir.
Það sem þið þurfið er:
3 litlar eða 2 stórar kjúklingabringur
3ja lita Pestó frá Ítalíu
Sveppi
Íslenskt smjör
Svartar ólívur
Tagliatelle
Salt
Pipar
Eðal kjúklingakrydd (Pottagaldrar)
Sólblómafræ
Agavesýróp eða hunang
Parmesan ost (Má sleppa)
Aðferð:
Ég byrja á því að kveikja á eldavélinni og skelli yfir potti með köldu vatni, smá salt og smá olíu. Þegar suðan kemur upp í þessum potti er tagliatellinu bætt út í. Það er misjafnt hversu lengi tagliatellið þarf að vera ofan í en það hefur oftast dugað að taka það upp úr eftir 9-10 min. Gott er að taka eina lengju upp úr og smakka.
Varðandi kjúklinginn og allt meðlæti þá byrja ég á því að skella pönnunni yfir með slatta af íslensku smjöri á. Mér persónulega finnst best að steikja sveppina og kjúklinginn upp úr íslensku smjöri, bæði upp á áferð og bragð. Ég byrja á því að steikja sveppina, pipra þá vel og hef þá á pönnunni þar til þeir eru orðnir vel brúnaðir og helli þeim yfir í skál. Næst sker ég kjúklingabringurnar niður í grófa bita og skelli á pönnuna. Ég þríf pönnuna ekki áður en ég steiki kjúklingabitana heldur bæti einungis við smjöri. Kjúklingabitana krydda ég með eðal kjúklingakryddi frá Pottagöldrum og smá Pipar. Þeir eru síðan hafðir á pönnunni þar til þeir eru fulleldaðir, mér finnst best að finna það út með því að taka 1 til 2 stærstu bitana af og skera þá í tvennt.
Eftir að hafa eldað kjúklinginn þá þríf ég pönnuna og set slatta af sólblómafræum á hana. Það þarf ekki endilega að setja hunang eða agave sýróp á fræin en mér finnst það bragðbetra. Ég sletti smá sikk sakk yfir fræin á pönnunni og læt þau brúnast í smá stund.
Seinast er allt sett saman í eina skál og blandað vel saman áður en pestóinu er bætt við. Ég hef prufað þó nokkur pestó á þennan rétt en finnst 3ja lita pestóið frá Ítalíu vera lang best. Næst skar ég ólívur niður og bætti út í réttinn. Það má í raun leika sér endalaust með það hvað er sett út í réttinni. Einnig getur verið gott að steikja papriku með sveppunum, brúna kasjúhnetur eða eitthvað í þá áttina. Það fer í raun eftir smekk hvers og eins.
Ég toppaði svo réttin með smá parmesan.
Verði ykkur að góðu
erlaguðmundsdóttir



