Sko . . Þessar muffins eru þær allra bestu sem ég hef smakkað. Ég gæti hafa sónað út og farið til himnaríkis í smá stund, svo góðar eru þær. Ég gæti mögulega borðað kremið eintómt uppúr skálinni líka. Með skeið. Allavega, ef þið eruð miklir sælkerar þá mæli ég með þessum og ef þið eruð forfallnir Kinder Bueno aðdáendur líkt og ég. Þessi uppskrift býður uppá ca. 8 muffins, sem var alveg nóg í mínu tilfelli en ég myndi tvöfalda ef þið ætlið að baka fyrir einhverja veislu.
Uppskrift:
- 200 gr nutella (eða hvaða súkkulaðihnetusmjör sem er).
- 2 meðalstór egg
- 100 gr hveiti
- 1/3 bolli hakkaðar hesilhnetur.
Byrjið á því að setja nutella í hrærivélaskál + eitt egg og hrærið vel. Bætið síðan síðari egginu við og hrærið. Næst sigtaði ég hveiti og hellti út í ásamt hnetunum. Lét þetta hrærast smá saman og skellti síðan deiginu í muffinsform. Þetta bakast við 200°c í ca 12 – 15min, best er að stinga gaffli í þær og ath hvor þær séu tilbúnar.
Krem:
- 125 gr íslenskt smjör við stofuhita
- 3-4 msk nutella (ég notaði súkkulaðihnetusmjör frá Nusco í kremið)
- 70 gr flórsykur (sigtaður)
- 2 msk kakó
- 2 tsk vanillusykur
- 1 Kinder Bueno súkkulaðistk (niðursaxað)
Byrja á því að hræra smjörið þar til það er orðið slétt og síðan má bæta öllu hinu út í. Hrærið vel þar til engir kekkir eru og allt vel blandað saman. Kremið er sett á þegar kökurnar eru kólnaðar og ég skreytti svo með hesilhnetuflögum og Kinder Bueno súkkulaði.
– erlaguðmundsdóttir