Um daginn ákvað ég að baka einhverja bombu fyrir nammidaginn. Ég held það hafi ekki farið framhjá neinum sem les þetta blogg að ég elska Oreo kex en það varð einmitt fyrir valinu fyrir nammidaginn. Mig langaði líka rosalega að prufa að setja karamellu í köku og keypti ég Caramel Milka súkkulaðið (sem er bara of gott) og setti það í múffurnar líka. Þessi blanda var eiginlega bara einu númeri of góð og mæli ég eindregið með því að skella í þessar múffur ef ykkur langar í smá sælgæti. Ég byrjaði á því að gera súkkulaðiköku uppskrift, þið megið í raun nota hvaða uppskrift sem þið viljið, bara þá sem ykkur finnst best. En ég hendi minni uppskrift hérna inn líka.
Uppskrift:
- 300gr hveiti
- 3msk kakó
- 1/2 tsk salt
- 1/2 tsk matarsódi
- 1 tsk lyftiduft
- 250gr sykur
- 100gr smjörlíki (bráðið)
- 250ml ab mjólk
- 2 egg
- 2 kassar af hreinu Oreo
- 200gr caramel milka
Blöndum öllum þurrefnunum saman fyrst og síðan setjum við smjörlíki, ab mjólk og eggin út í. Hrærum þetta vel saman. Síðan setti ég muffins form ofan í bökunarform sem er fyrir muffins og setti botnfyllir af deiginu með tsk. Svo setti ég Oreo kexköku ofan á það og þrýsti því ofan í, aftur smá deig yfir kexið. Síðan setti ég caramel súkkulaðibita ofan á það og síðan smá deig yfir o.s.fr. S.s. fyrst smá deig, síðan Oreo kex, smá deig, caramel og smá deig. Þarf ekki endilega að setja deig ofan á karamelluna, skiptir bara mestu máli að oreo kexið sé þakið deigi.
Þetta bakast við 200°í ca. 15-20min, myndi prufa að stinga í með gaffli þegar 15min eru komnar og ef ekkert kemur upp með gafflinum þá eru þær klárar. Þegar búið er að taka þær út úr ofninum þá setti ég þær út í glugga og kældi þær þar á meðan að ég bjó til kremið.
Krem:
- 170gr íslenskt smjör (við stofuhita)
- 6 msk nutella
- 1 msk kakó
- 2 1/2 msk flórsykur
- 2-3 tsk vanillusykur
- 1-2 msk sýróp
- 6stk muldar oreokexkökur
Hrærið smjörið, nutellað, flórsykurinn og sýrópið vel saman og bætið síðan hinu út í og hrærið vel. Síðan er bara að skella þeim á múffurnar þegar að þær eru búnar að kólna og síðan skar ég Oreo kex til helminga og skreytti með.
Mér fannst þær betri eftir að ég hafði geymt þær inn í ísskáp yfir nóttina.
Alltaf gaman að prufa eitthvað nýtt og mæli ég alveg hiklaust með þessari uppskrift 🙂
Verði ykkur að góðu.
– erlagudmunds