Afsakið bloggleysið, það er bara búið að vera endalaust að gera seinustu daga bæði í skólanum og lífinu. . En ég bæti það upp núna rétt fyrir prófin.
Ég hef fengið mikla eftirspurn um uppskrift af hrökkbrauði sem ég bý reglulega til, ég er alfarið farin að borða það og alveg sleppt brauði seinustu mánuði, svo gott er það. Þetta er samt uppskrift sem ég fékk frá henni móður minni. Já þeim snilling. Hún er algjörlega mín fyrirmynd í eldhúsinu, það bara klikkar ekkert hjá henni. Ekkert.
Uppskrift:
- 3dl sólblómafræ
- 1dl sesamfræ
- 1dl haframjöl
- 1dl hörfræ
- 2tsk gróft salt (maldon salt)
- 3 1/2 til 4dl spelt hveiti (fín malað).
- 2dl vatn
- 1dl jómfrúar eða ólífuolía.
Aðferð:
Þurrefnunum er öllu hrært saman og síðan er vatninu og olíunni bætt við. Það þarf ekki hrærivél til að búa þetta til, en ég nota bara skál og sleikju. Stillið ofninn á 200°c og blástur eða yfir og undir hita. Setjið bökunarpappír á plötu og deigið á, ég skipti deiginu í fjóra hluta og baka þetta í fjórum hollum s.s.. Mér finnst best að setja bökunarpappír yfir deigið líka og fletja það síðan út með kökukefli. Það er líka hægt að þrýsta deiginu bara niður með höndunum, en mér finnst það oft verða of þykkt hrökkbrauðið þá. Eftir að þið eruð búin að fletja það út þá skeriði það eins og þið ætlið að hafa hrökkbrauðin, mín eru allskonar í laginu. Síðan hendiði þessu inn í ofn og þetta bakast svona í ca. 25 – 30min, best er að fylgjast vel með þeim og taka út þegar þau eru orðin fallega gullinbrún. Þá eruð þið bara komin með gómsæt og holl hrökkbrauð tilbúin til átu.
Mér finnst voða gott að setja egg á þau og borða sem hádegismat, ég get lofað ykkur því að það er mikill magafyllir. Svo er líka gott að setja kjúllaskinku, gúrku og papriku. Annars ráðið þið því alveg hvað þið setjið á þau, allt sem ykkur þykir gott.
Verði ykkur að góðu.
– erlagudmunds