Ég baka þessi skinkuhorn reglulega. Ég er samt ekki mikið fyrir svona brauðmeti en finnst rosa gott að smakka eitt og eitt. Kærastinn minn er hinsvegar er sjúkur í þessi horn, þau eru oftast horfin eftir svona 10 – 15 min og ekki sést það samt á honum. Ákvað að skella inn uppskrift af þeim þar sem margir eru búnir að spyrja um þau og vona ég að þau standist undir væntingum.
Uppskrift:
- 450gr hveiti
- 30gr íslenskt smjör við stofuhita
- 50gr sykur
- 1tsk salt
- 12gr pressuger
- 250ml mjólk
Ég byrja á því að hella mjólkinni í sér skál og bæti pressugerinu síðan við, læt það kraumast aðeins. Á meðan set ég allt þurrefnið í hrærivélaskálina og blanda því örlítið saman með sleikju áður en ég bæti við smjörinu. Mér finnst best að taka smjörið út kvöldið áður og geyma það á eldhúsborðinu, þá er það orðið vel mjúkt fyrir baksturinn daginn eftir. Þegar þetta hefur allt blandast ágætlega saman þá bæti ég við mjólkinni og gerinu, saman við deigið og læt það hnoðast í hrærivélinni. Ef deigið er frekar blautt þá myndi ég bæta við svona 30 – 50gr af hveiti. Þegar deigið er búið að hnoðast í vélinni, þá skelli ég því á borðið ásamt smá hveiti og hnoða það aðeins meira með höndunum. Set hveiti í botninn á hrærivélaskálinni og skelli deiginu ofan í, set rakt viskustykki yfir (bleitt með volgu vatni) og geymi á heitum stað. Læt deigið hefast í svona ca. 40 – 50min.
Ég skipti deiginu í 4 hluta og flet hvern og einn út í hringlaga pítsu. Sker síðan eins margar sneiðar og eru í boði, eða svona eins og sést á myndinni hér fyrir ofan. Mér finnst rosalega gott að setja smurost og verður skinkumyrja oftast fyrir valinu. Ég ákvað þó að breyta aðeins til núna og setja skinkumyrju á helminginn af uppskriftinni og prufa síðan að setja pítsasmurost á hinn. (Það var btw geðveikt, kemur hrikalega gott bragð af pítsasmurostinum). Ég byrja s.s. á því að setja smurostinn, síðan kemur skinkan sem ég sker niður í litla þríhyrninga og síðast kemur rifin ostur. Þá er ekkert eftir nema að rúlla þessu upp, skella á bökunarplötu, pensla með eggi og strá yfir smá rifnum osti og sesamfræjum. Hitið ofnin í 200°c og bakið í ca. 10min eða þar til hornin eru orðin fallega gullinbrún.
Verði ykkur að góðu
https://www.facebook.com/erlagudmundsblog
– erlaguðmunds