Ókei. Þetta er seinasta Oreouppskriftin í bili, ég lofa. Eða svona næstum því. Oreo er bara svo hrikalega gott. Allavega þá var fjölskylduættarmót hjá mömmu ætt um helgina og var smá kaffihlaðborð á sunnudeginum hjá okkur. Ég ákvað því að baka smá bombu fyrir fólkið. Ég hef aldrei verið mikið fyrir ostakökur þar til ég fór að prufa að gera þær sjálf og troða öllu í þær sem mér finnst gott. Í þetta skipti ákvað ég að prufa að gera ostaköku með Oreo. Surprise. Ég notaði uppskrift af venjulegri ostaköku í grunninn en svo mixaði ég fullt af öðru saman við, þannig ég vissi í raun ekkert hvort þessi kaka myndi heppnast. En hún gerði það svo sannarlega, kláraðist strax, enda alveg hrikalega góð. Ég get ekki annað en mælt með henni í kaffinu, best er að gera hana kvöldið áður og geyma inn í ísskáp yfir nóttina. Eða um morguninn og taka hana út um kvöldið.
Botn:
- 1 kassi af Oreo eða 16 Oreokexkökur
- 150gr íslenskt smjör (brætt)
Ég byrjaði á því að setja Oreokexið á fullt í matvinnsluvél. Þegar það er klárt þá bætti ég smjörinu við og lét það blandast vel saman í matvinnsluvélinni. Því næst klippti ég út smjörpappír og setti í botninn á hringlaga formi. Þetta gerði ég svo það yrði auðveldara að losa kökuna úr forminu. Þá er bara eftir að þrýsta kexinu vel í botninn, passa vel að fylla í öll göt. Svo er þessu skellt inn í ísskáp á meðan að þið gerið fyllinguna.
Fylling:
- 225gr hreinn rjómaostur
- 250ml rjómi (þeyttur)
- 2tsk vanillusykur
- 4tsk kakó
- 4tsk nutella (má sleppa)
- 6 oreokexkökur (saxaðar smátt niður)
Ég byrjaði á því að hræra rjómaostin vel saman eða þar til hann var orðin sléttur og fínn. Setti hann svo í aðra skál á meðan ég þeytti rjómann og bætti svo rjómaostinum saman við það. Því næst er vanillusykrinum, kakóinu og nutellanu bætt út í og hrært smá. Seinast fer svo oreokexið út í, en ég saxaði það frekar smátt áður. Þá er fyllingin klár og ekkert eftir nema að hella henni ofan á botninn. Þetta er svo kælt í minnst 4klst en eins og ég nefndi hér fyrir ofan þá finnst mér betra að geyma hana yfir nótt. Ég bræddi líka saman súkkulaði og rjóma í potti og skreytti með teskeið og saxaði síðan oreokex og skar til helminga í skreytingu.
Verði ykkur að góðu
– erlaguðmundsdóttir