Í tilefni bolludags á morgun þá skellti ég í bollur núna á föstudaginn. Bjó til karamellubollur og oreobollur sem voru báðar alveg hrikalega góðar.
Vatnsdeigsbollur:
- 170 gr íslenskt smjör
- 4 dl vatn
- 250 gr fínmalað spelt (má nota venjulegt hveiti)
- 1/2 tsk vínsteinslyftiduft (má einnig nota venjulegt)
- 6 egg
Byrjið á því að hita vatnið og smjörlíkið saman þar til það fer að sjóða en þá er potturinn tekin af hitanum og hveitinu og lyftiduftinu bætt saman við og hrært vel þar til deigið er orðið slétt og fínt. Látið deigið kólna í smá stund áður en þið bætið eggjunum við. Ég skelti öllum eggjunum saman í skál og sló þeim saman með gaffli, bætti þeim síðan hægt og rólega saman við deigið og hrærði með handþeytara á meðan. Deigið er þá klárt og hægt er að setja það á plötu með skeið en ég notaði sprautupoka til að fá fallegra lúkk á þær. Hitið ofnin í 200°C og bakið í ca. 25 – 30min, passið ykkur á að opna ekki ofnin fyrr en í fyrsta lagi eftir 25min. Bollurnar eru klárar þegar þær eru orðnar fallega gullinbrúnar.
Karamellubollur:
- 250 ml rjómi (þeyttur)
- hálfur poki af karamellu Nóa Kropp
- slatti af niðurskornum jarðaberjum.
- 100 gr karamellu pipp
- karamellu kurl frá Nóa Síríus
Ég skar jarðaberin smátt og muldi nóa kroppið niður með buffhamar, bætti þeim svo út í þeytta rjóman og blandaði því vel saman við. Þessu er svo skellt í millið á bollunum. Ég bræddi síðan karamellu pippið með smá rjóma og skellti ofan á bollurnar og skreytti með karamellukurlinu.
Oreobollur:
- Heill pakki af Royal súkkulaðibúðing
- 500 ml mjólk
- Heill pakki af oreo kexi
- 200 gr Oreo milka súkkulaði
Byrjið á því að hræra í súkkulaðibúðingin og henda honum inn í kæli í ca. 20 – 30min eða þar til hann er orðin stífur. Ég skar Oreokexið smátt niður og bætti því svo saman við súkkulaðibúðinginn og fer þess blanda í millið á bollunum. Ofan á bræddi ég svo 150 gr milka oreo súkkulaði með smá rjóma og skreytti svo með restinni af súkkulaðinu.
Verði ykkur að góðu
erlaguðmundsdóttir