Í tilefni mæðradagsins ákvað ég að henda í eina góða köku fyrir múttu. Græjaði hana í gær og skutlaðist með hana upp í sveit í dag. Hún er alveg hrikalega góð og hnetubotninn tónar vel við súkkulaðimúsina. Mun klárlega gera þessa aftur og mæli með að þið prufið.
Botn:
- 150 gr döðlur (lagðar í bleyti)
- 100 gr hesilhnetur
- 100 gr möndlur
- 2 msk Agave sýróp
- 2 msk hnetusmjör
- 100 gr 70% súkkulaði
- 1 tsk salt
Byrjaði á því að setja döðlurnar í volgt vatn og lét þær liggja þar í ca. 15 mínútur. Á meðan skellti ég möndlunum og hesilhnetunum í matvinnsluvél. Ég lét þær ekki vera of lengi, langaði að hafa þær pínu grófar. Næst bætti ég við hnetusmjöri og agavesýrópinu. Síðan losaði ég döðlurnar við vatnið og bætti þeim út í matvinnsluvélina. Seinast skar ég síðan niður 70% súkkulaði, frekar gróft og henti í matvinnsluvélina ásamt saltinu. Þegar þetta var klárt þá klæddi ég hringlaga bökunarform með bökunarpappír til þess að sporna gegn því að botninn myndi festast í forminu. Skellti síðan botninum í frysti og hann var orðin klár eftir 1 klst.
Súkkulaðimús:
- 250 ml rjómi
- 60 gr íslenskt smjör
- 200 gr 70% súkkulaði
- 2 egg
- 1 tsk vanillusykur
Gott er að byrja á því að þeyta rjóman og á meðan hann þeytist að bræða súkkulaðið og smjörið saman í potti. Leyfið súkkulaðinu að kólna pínu áður en þið skellið eggjunum út í. Byrjið á að setja eitt egg og hrærið svo, ég hrærði bara varlega með gaffli og bætti síðan síðara egginu út í ásamt vanillusykrinum. Þegar búið er að hræra þessu öll saman þá er súkkulaðiblöndunni blandað varlega saman við stífþeyttan rjóman, ég setti fyrst helming og blandaði saman mjög varlega með sleikju og skellti síðan restinni út í. Þá er súkkulaðimúsin klár og henni hellt ofan á botninn og dreift vel úr henni. Gott er að gera kökuna með 3 klst fyrirvara eða dags fyrirvara, en hún er best daginn eftir.
Ég skreytti með smá Hrís, Hindberjum og Brómberjum en það má að sjálfsögðu skreyta með hverju sem er.
Verði ykkur að góðu
erlaguðmundsdóttir