Þessi er algjört nammi og má segja að ein sneið sé nóg. En hún er hrikalega góð og mæli ég klárlega með henni fyrir nammidaginn. Í botninn er s.s. þessi klassíska franska súkkulaðikaka, hnetusmjörskrem ofan á og síðan toppað með snickers og bræddum góa kúlum.
Botn:
- 4 stk egg
- 2 dl sykur
Þetta er þeytt vel saman þar til þetta er orðið smá fluffy.
- 200 gr íslenskt smjör
- 200 gr súkkulaði
- 1 dl hveiti
Smjörinu og súkkulaðinu er skellt saman í pott og brætt saman við vægan hita. Þessari blöndu er síðan hellt varlega út í eggja og sykurblönduna. Seinast er hveitinu svo bætt við. Kakan er svo bökuð við 175° í ca. 25min. Gott að stinga gaffli í miðjuna þegar að 20 min eru liðnar til þess að ath. hvort hún sé klár.
Hnetusmjörskrem:
- 250 gr íslenskt smjör
- 1 egg
- 4 msk flórsykur
- 1 tsk vanillusykur
- 3 msk hnetusmjör
Byrjið á því að hræra smjörið, næst er egginu bætt út í og þetta látið blandast vel saman. Ég sigta síðan flórsykurinn og vanillusykurinn út í og seinast set ég hnetusmjörið.
Hnetusmjörskreminu er síðan bara skellt ofan á kökuna. Ég skar síðan 3 Snickers, frekar gróft, og dreifði yfir kökuna. Til að toppa sætindinn þá bræddi ég góa kúlur í potti með smá rjóma og sletti yfir kökuna.
Mæli klárlega með þessari, hún er einu númeri of góð.
Verði ykkur að góðu
erlaguðmundsdóttir