Toblerone kaka

IMG_20160208_112002

Botn

300 gr maryland kex (ég notaði í rauðu pökkunum).
100 gr suðusúkkulaði gróft saxað.
100 gr íslenskt smjör (mjúkt).

Tobleronemús

2stk toblerone.
200 ml rjómi.
2 eggjarauður.
2 eggjahvítur.
1 msk stevia sykur Via Health.

IMG_20160212_111013

Aðferð:

 1. Setjið kexið og suðusúkkulaðið (niðurskorið) í matvinnsluvél og allt á fullt.
 2. Næst er smjörinu bætt saman við og vélin sett aftur á fullt. Allt látið blandast vel saman.
 3. Sníðið bökunarpappír í hringlaga form og skellið maryland botninum ofan í. Þessu er þrýst vel ofan í botninn og upp hliðarnar.
 4. Botninum skellt inn í kæli og geymdur þar á meðan þið útbúið tobleronmúsina.
 5. Bræðið 2 stk af toblerone í potti við vægan hita, passið að hræra vel svo þið brennið ekki súkkulaðið. Þegar þetta er bráðið er pottinum skellt til hliðar og súkkulaðið látið kólna.
 6. Þeytið rjómann og setjið í sér skál.
 7. Þeytið eggjahvíturnar í smá stund og bætið svo við steviu sykrinum.
 8. Hrærið eggjarauðurnar saman við tobleronsúkkulaðið, ein rauða í einu. Því er svo blandað saman við eggjahvítufroðuna, varlega með sleikju. Seinast er þessu svo blandað saman við rjómann.
 9. Takið botninn út úr kæli og hellið músinni ofan á. Þetta er svo geymt inn í kæli í nokkrar klst eða yfir nótt en þá hefur músin náð að stífna vel.
 10. Ég skreytti með tobleron í hliðunum og skar síðan smá niður til að dreyfa yfir kökuna. (Ég keypti s.s. 4 stk af toblerone í heildina).

IMG_20160212_111115

Verði ykkur að góðu

erlaguðmundsdóttir

Karamellumús m/ Toblerone

1930679_788158957976746_1873626893930087082_n
Þessi eftirréttur er dásemdin ein og alger sykurbomba. Ég mæli með að gera hann samdægurs því annars getur kexið orðið mjúkt en mér persónulega finnst það ekki gott. Ef ykkur vantar eftirrétt fyrir gamlárs þá mæli ég klárlega með þessum.

Karamellumús

300gr Síríus súkkulaði m/ karamellukurli og sjávarsalti
3 eggjahvítur
3 eggjarauður
2 msk stevia sykur (via health) – Má setja venjulegan sykur
250ml rjómi

Fylling

1stk Toblerone
1pk Maryland kex (rautt)
250gr jarðaberjaaska

1456699_790771591048816_6235689042948509327_n

Aðferð:

 1. Bræðið súkkulaðið í potti og passið að brenna það ekki. Gott er að taka það af hitanum af og til og hræra vel. Setjið til hliðar og látið kólna.
 2. Setjið þrjár eggjahvítur í hrærivélaskál og þeytið þar til hvítan er orðin að froðu. Bætið þá sykrinum við og hrærið örlítið.
 3. Bætið þrem eggjarauðum saman við súkkulaðið. Gott er að setja eina í einu og hræra vel á milli.
 4. Blandið saman súkkulaðiblöndunni og eggjahvítublöndunni með sleikju. Gott er að gera þetta í þrennu lagi.
 5. Næst er rjóminn þeyttur og honum blandað saman við súkkulaðiblönduna. Þá er súkkulaðikaramellumúsin klár og þá er ekkert eftir nema að setja smá nammi með í eftirréttinn.
 6. Í botninn á glösum eða fínum eftirréttarskálum muldi ég niður maryland kex. Ég tók alveg heilan kexpakka og muldi niður. Ég setti u.þ.b. helminginn í botninn á glösunum.
 7. Ofan á kexið fer svo karamellumús, ofan á karamellumúsina fer svo meira kex og gróft skorið toblerone. Svo setti ég restina af músinni ofan á og toppaði með meira toblerone og jarðaberjum.

Hann hljómar kannski eins og vesenisverk en ég get lofað ykkur því að þetta tekur enga stund. Ég held ég hafi verið í mesta lagi 20min að útbúa hann og skella honum inn í ísskáp.

1656078_790771931048782_132699816698964807_n

Verði ykkur að góðu

erlaguðmundsdóttir

Salt-karamellu ostakaka

IMG_20151014_134243

Ég bjó til þessa fyrir nóvemberblað Nýs lífs ásamt tveim öðrum uppskriftum sem ég mæli með að þið kíkið á. Hún er algjör draumur. Mæli með að þið prufið þessa um helgina, hrikalega góð með kaffinu.

IMG_20151112_135630

Botn:

300 gr McVites´s dark chocolate digestives
90 gr íslenskt smjör (mjúkt)

Aðferð:

 1. Brjótið kexið niður í matvinnsluvél og hún sett á fullt.
 2. Bætið smjörinu saman við og vélin á fullt aftur.
 3. Spreyjið bökunarform með PAM-sprey eða setjið bökunarpappír í botninn (til þess að auðvelda ykkur að ná botninum úr forminu). Ég notaði 24 cm form.
 4. Kexblöndunni skellt í formið og þrýst vel niður og upp allar hliðar.
 5. Geymt inn í kæli á meðan þið útbúið fyllinguna.

Fylling:

225 gr Philadelphia-rjómaostur
200 ml rjómi
1 msk flórsykur
1 tsk vanillusykur
8 stk Dumle karamellur (bræddar) – Einnig gott að setja þykka karamellusósu í stað Dumle.

Aðferð:

 1. Bræðið karamellurnar með smá rjómaslettu út í, setjið til hliðar og látið kólna.
 2. Rjómaostur, vanillusykur og flórsykur sett saman í hrærivélaskálina og látið blandast vel saman.
 3. Þeytið rjóma.
 4. Blandið rjómanum saman við rjómaostablönduna.
 5. Setjið karamellublönduna saman við.
 6. Hellið fyllingunni ofan á botninn og geymið í kæli í a.m.k. 2 klst.

Salt-karamella:

1 bolli sykur
50 gr íslenskt smjör
1/2 bolli rjómi
2 tsk sjávarsalt

Aðferð:

 1. Setjið pönnu á eldavélina, stillið á 6 og hellið sykrunum ofan í pönnuna.
 2. Hrærið vel í sykrinum þar til hann hefur alveg bráðnað. Það munu líklegast myndast kögglar en haldið áfram að bræða sykurinn og hræra vel, þeir fara.
 3. Þegar sykurinn er bráðnaður er pannan tekin af hellunni og smjörinu bætt saman við. Hrært vel.
 4. Næst er rjómanum skellt út í og munið að hræra vel. Ef ykkur finnst 1/2 bolli lítið þá bætið þið bara við rjóma.
 5. Seinast er sjávarsaltinu dreift yfir.
 6. Salt-karamellunni dreift yfir kökuna.

Ég skreytti kökuna einnig með Maltesers.

Verði ykkur að góðu

erlaguðmundsdóttir

Sunnudagsbomba

IMG_20151025_144353

IMG_20151025_143956

Ég lofa ég fer að henda inn einhverri hollri uppskrift hérna. En fyrst þessi. Þessi er alltof góð. Ef ykkur langar í nammiköku þá myndi ég ekki hika við að prufa þess.

Súkkulaðibotn:

 • 3 bollar hveiti
 • 3 egg
 • 1 bolli sykur
 • 1/2 bolli Isio olía
 • 4 msk kakó
 • 2 bollar hreint jógúrt
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 tappi vanilludropar

Skellið öllu saman í skál og hrærið þar til blandan er orðin slétt. Spreyið eitt form með PAM sprey og hellið blöndunni ofan í formið. Bakist við 180°C í ca. 20 min.

Fylling:

 • 280 ml rjómi
 • 3 kókosbollur

Byrjið á því að þeyta rjómann. Ég setti síðan kókosbollurnar heilar ofan í skálina með þeytta rjómanum og lét hrærivélina sjá um að blanda þessu saman. Lét hrærivélina á miðlungs hraða í ca. 15 sekúndur. Rjómablöndunni er þá skellt ofan á súkkulaðibotninn og geymt inn í kæli.

Marengsbotn:

 • 100 gr púðursykur
 • 100 gr sykur
 • 3 eggjahvítur
 • 1 bolli rice krispies
 • 2 bollar hrís kúlur

Stífþeytið sykurinn, púðursykurinn og eggin. Bætið við rice krispies og hrís kúlum með sleif og passið að blanda vel saman. Marengsbotninn bakast svo við 150°C í ca. 30 – 40 mín. Gott er að láta botninn kólna í allavega klst áður en honum er skellt ofan á rjómablönduna.

IMG_20151025_144028

Til að toppa kökuna bræddi ég suðusúkkulaðidropa með smá rjóma og dreifði vel yfir marengstoppinn. Ég skar einnig niður 3 Twix og dreifði yfir alla kökuna.

Verði ykkur að góðu

erlaguðmundsdóttir

Súkkulaði salt karamellu draumur.

IMG_20151001_190733

IMG_20151001_190342

Þessi kaka er algjör draumur. Ég á eiginlega erfitt með að lýsa henni meira, þetta er kaka sem allir verða að smakka. Tilvalin fyrir komandi helgi.

Botn:

 • 3/4 pakki af LU Bastogne kexi
 • 3 lítil Daim
 • 70 gr íslenskt smjör

Ég byrja á því að setja kexið í matvinnsluvélina, þar næst fer Daimið og þegar þetta tvennt er tilbúið þá set ég smjörið. Blöndunni er svo þjappað vel ofan í bökunarform og skellt inn í ísskáp.

Súkkulaðimús:

 • 250 ml rjómi
 • 60 gr íslenskt smjör
 • 200 gr suðusúkkulaði
 • 2 egg
 • 1 tsk vanillusykur

Ég byrja á því að þeyta rjómann og set hann til hliðar á meðan ég bræði súkkulaðið og smjörið saman í potti. Eggjunum er síðan bætt út í súkkulaðiblönduna en gott er að leyfa henni að kólna smá áður en eggin eru sett út í. Gott er að blanda saman einu eggi í einu. Seinast setti ég svo vanillusykurinn. Þegar búið er að hræra þessu öll saman þá er súkkulaðiblöndunni blandað varlega saman við rjóman, ég setti fyrst helming og blandaði saman mjög varlega með sleikju og skellti síðan restinni út í. Þá er súkkulaðimúsin klár og henni hellt ofan á botninn og dreift vel úr henni. Gott er að gera kökuna daginn áður eða snemma um daginn upp á að súkkulaðimúsin verði orðin stíf.

Söltuð karamella:

 • 1 bolli sykur
 • 50 gr íslenskt smjör
 • 1/2 bolli rjómi
 • 2 tsk sjávarsalt.

Ég stillti helluna á 6 og hellti sykrinum á pönnuna. Hræra vel í þessu þangað til allur sykurinn er bráðnaður. Sykurinn mun fara í köggla en það er eðlilegt svo þið haldið bara áfram að hræra. Þegar sykurinn er bráðnaður þá er smjörinu bætt saman við og pannan tekin af hellunni. Næst fer rjóminn út í og honum blandað vel saman. Seinast setti ég svo 2 tsk af sjávarsalti. Þessi blanda er svo látin kólna smá og skellt yfir kökuna.

Ég skreytti kökuna með Dumle Snacks – Original

IMG_20151001_192838

IMG_20151001_190112

Verði ykkur að góðu

erlaguðmundsdóttir

Tagliatelle m/kjúkling og pestó.

IMG_20150903_213003

Þetta er einn af mínum uppáhalds réttum og bý ég hann til reglulega. Hann er fljótlegur, einfaldur og ekki er bragðið að skemma fyrir.
Það sem þið þurfið er:

IMG_20150907_142121

3 litlar eða 2 stórar kjúklingabringur
3ja lita Pestó frá Ítalíu 
Sveppi
Íslenskt smjör
Svartar ólívur
Tagliatelle
Salt
Pipar
Eðal kjúklingakrydd (Pottagaldrar)

Sólblómafræ
Agavesýróp eða hunang
Parmesan ost (Má sleppa)

Aðferð: 

Ég byrja á því að kveikja á eldavélinni og skelli yfir potti með köldu vatni, smá salt og smá olíu. Þegar suðan kemur upp í þessum potti er tagliatellinu bætt út í. Það er misjafnt hversu lengi tagliatellið þarf að vera ofan í en það hefur oftast dugað að taka það upp úr eftir 9-10 min. Gott er að taka eina lengju upp úr og smakka.

Varðandi kjúklinginn og allt meðlæti þá byrja ég á því að skella pönnunni yfir með slatta af íslensku smjöri á. Mér persónulega finnst best að steikja sveppina og kjúklinginn upp úr íslensku smjöri, bæði upp á áferð og bragð. Ég byrja á því að steikja sveppina, pipra þá vel og hef þá á pönnunni þar til þeir eru orðnir vel brúnaðir og helli þeim yfir í skál. Næst sker ég kjúklingabringurnar niður í grófa bita og skelli á pönnuna. Ég þríf pönnuna ekki áður en ég steiki kjúklingabitana heldur bæti einungis við smjöri. Kjúklingabitana krydda ég með eðal kjúklingakryddi frá Pottagöldrum og smá Pipar. Þeir eru síðan hafðir á pönnunni þar til þeir eru fulleldaðir, mér finnst best að finna það út með því að taka 1 til 2 stærstu bitana af og skera þá í tvennt.

Eftir að hafa eldað kjúklinginn þá þríf ég pönnuna og set slatta af sólblómafræum á hana. Það þarf ekki endilega að setja hunang eða agave sýróp á fræin en mér finnst það bragðbetra. Ég sletti smá sikk sakk yfir fræin á pönnunni og læt þau brúnast í smá stund.

IMG_20150907_142057

Seinast er allt sett saman í eina skál og blandað vel saman áður en pestóinu er bætt við. Ég hef prufað þó nokkur pestó á þennan rétt en finnst 3ja lita pestóið frá Ítalíu vera lang best. Næst skar ég ólívur niður og bætti út í réttinn. Það má í raun leika sér endalaust með það hvað er sett út í réttinni. Einnig getur verið gott að steikja papriku með sveppunum, brúna kasjúhnetur eða eitthvað í þá áttina. Það fer í raun eftir smekk hvers og eins.

IMG_20150907_142028

Ég toppaði svo réttin með smá parmesan.

Verði ykkur að góðu

erlaguðmundsdóttir

Frönsk m/ hnetusmjörskremi

IMG_20150903_213030

Þessi er algjört nammi og má segja að ein sneið sé nóg. En hún er hrikalega góð og mæli ég klárlega með henni fyrir nammidaginn. Í botninn er s.s. þessi klassíska franska súkkulaðikaka, hnetusmjörskrem ofan á og síðan toppað með snickers og bræddum góa kúlum.

Botn:

 • 4 stk egg
 • 2 dl sykur

Þetta er þeytt vel saman þar til þetta er orðið smá fluffy.

 • 200 gr íslenskt smjör
 • 200 gr súkkulaði
 • 1 dl hveiti

Smjörinu og súkkulaðinu er skellt saman í pott og brætt saman við vægan hita. Þessari blöndu er síðan hellt varlega út í eggja og sykurblönduna. Seinast er hveitinu svo bætt við. Kakan er svo bökuð við 175° í ca. 25min. Gott að stinga gaffli í miðjuna þegar að 20 min eru liðnar til þess að ath. hvort hún sé klár.

Hnetusmjörskrem:

 • 250 gr íslenskt smjör
 • 1 egg
 • 4 msk flórsykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 3 msk hnetusmjör

Byrjið á því að hræra smjörið, næst er egginu bætt út í og þetta látið blandast vel saman. Ég sigta síðan flórsykurinn og vanillusykurinn út í og seinast set ég hnetusmjörið.

Hnetusmjörskreminu er síðan bara skellt ofan á kökuna. Ég skar síðan 3 Snickers, frekar gróft, og dreifði yfir kökuna. Til að toppa sætindinn þá bræddi ég góa kúlur í potti með smá rjóma og sletti yfir kökuna.
Mæli klárlega með þessari, hún er einu númeri of góð.

Verði ykkur að góðu

erlaguðmundsdóttir